Ferill 563. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 883  —  563. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða annan hátt. Siglingastofnun er heimilt að veita skipverja tímabundinn frest í eitt sinn til þess tíma sem hann er skráður á öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð. Greiða skal gjald fyrir veittan frest og skulu þau gjöld standa undir raunkostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu hans. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Ef skilyrðum 1. mgr. er fullnægt ritar lögskráningarstjóri vottorð sitt á gögnin. Ef eitthvert gagna skv. 1.–4. og 6.–7. tölul. 1. mgr. vantar skal eigi lögskráð fyrr en úr því er bætt. Siglingastofnun hefur eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að frestur sjómanna til að sækja öryggisfræðslu við Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum aðila verði bundinn við þá dagsetningu sem sjómaður er skráður á námskeið hjá skólanum.
    Árið 1997 var lögfest það skilyrði í lögum um lögskráningu sjómanna að til að fá lögskráningu yrði viðkomandi að hafa sótt námskeið í öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum sambærilegum viðurkenndum aðila. Jafnframt var sett ákvæði til bráðabirgða þar sem veittur var frestur til að gefa mönnum tíma til að sækja slíkt námskeið. Þessi frestur hefur verið framlengdur í tvígang. Reynslan er sú að menn hafa gengið á lagið og frestað því að sækja námskeið á meðan lögin veittu svigrúm til þess.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að sá sem sækir um lögskráningu og hefur ekki sótt tilskilið öryggisfræðslunámskeið fái einn frest fram að þeim tíma sem hann er skráður á námskeið. Sæki hann ekki það námskeið sem honum hefur verið úthlutað fær hann ekki lögskráningu eftir það tímamark fyrr en hann hefur lokið námskeiðinu.
    Hinn 1. apríl árið 2001 rann út sá frestur sem sjómönnum hafði verið gefinn til að sækja öryggisfræðslu við Slysavarnaskóla sjómanna. Þrátt fyrir að nokkur fjöldi manna hefði verið skráður til námskeiðahalds fram að þeim tíma gekk mjög illa að fá menn á námskeið. Tveimur námskeiðum hafði verið aflýst á fyrstu þremur mánuðum ársins 2001 vegna þess að ekki náðist tilskilinn lágmarksfjöldi nemenda (10) á námskeið. Á árinu 2000 var ástandið ekkert ósvipað og mikil afföll urðu á nemendum þrátt fyrir vitneskju manna um að fresturinn rynni út í byrjun apríl 2001. Við samantekt á námskeiðum frá ársbyrjun 2000 til loka mars 2001 voru nærri 200 námskeiðspláss sem ekki tókst að fylla. Eftir að fresturinn rann út fengu sjómenn lögskráningu hjá lögskráningarstjórum svo fremi að þeir væru þegar skráðir á námskeið við skólann. Þrátt fyrir að fullskráð væri á öll námskeið og nemendur væru skráðir á biðlista gekk erfiðlega að fá nemendur til að mæta á námskeið. Var svo komið að menn frestuðu aftur og aftur að koma á námskeið. Þegar lögskráningarumdæmin hófu síðan að framfylgja ákvæðum laganna í byrjun ársins 2002 fór svo að sjómenn skráðu sig í auknum mæli á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna og biðlistar hafa hrannast upp. Nú er svo komið að verið er að skrá nemendur á námskeið í desember á þessu ári. Hér eru að stærstum hluta einstaklingar sem hafa í gegnum árin dregið að koma á námskeið en þó eru einnig dæmi um menn sem eru að hefja sjómennsku á ný eftir að hafa verið í landi einhvern tíma. Ljóst er af þessu að ef lögunum yrði breytt á þann veg að framlengja almennt frestinn til tiltekins tíma yrði afleiðingin sú að þessi hópur færðist til um þann tíma. Með frumvarpi þessu er því valin sú leið að hver og einn sjómaður verður að sækja um undanþágu til Siglingastofnunar Íslands sem gengur úr skugga um að skilyrðum undanþágu sé fullnægt og skráir undanþáguna í lögskráningarkerfi sjómanna. Allir lögskráningarstjórar á landinu hafa aðgang að því kerfi og geta þar séð hverjir hafi slíka undanþágu og til hve langs tíma.
    Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að sams konar frestur sé veittur nýliðum á sjó til að gangast undir öryggisfræðslunámskeið. Sá sem er að fara á sjó í fyrsta sinn verður því að skrá sig áður á öryggisfræðslunámskeið sjómanna en fær lögskráningu þar til námskeiðið er haldið. Í gildandi lögum er miðað við að nýliðar hafi sex mánaða frest til að sækja námskeið. Eðlilegt er að sams konar regla gildi fyrir alla sjómenn að þessu leyti og þurfa nýliðar ekki síður að fara á öryggisfræðslunámskeið en reyndir sjómenn.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að annaðhvort viðkomandi einstaklingur eða útgerð sú sem hann starfar hjá sæki um undanþágu til Siglingastofnunar Íslands til að fá lögskráningu án þess að viðkomandi hafi gengist undir öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt. Séu skilyrði uppfyllt getur Siglingastofnun veitt skipverjanum tímabundinn frest í eitt sinn til þess tíma sem hann er skráður á námskeið. Greiða skal fyrir veittan frest vegna kostnaðar Siglingastofnunar og á að ákveða gjaldið í gjaldskrá stofnunarinnar.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna,
nr. 43/1987, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að þrengja það svigrúm sem verið hefur í lögum um að veita skipverjum sem sækja um lögskráningu á skip undanþágu til að sækja öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að sá sem sæki um lögskráningu og ekki hefur sótt tilskilið öryggisfræðslunámskeið fái einn frest til lögskráningar, fram að þeim tíma sem hann er skráður á námskeiðið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.